Gleðilegt skapandi ár!

Gleðilegt ár!
Það var athyglisvert að horfa á fréttaannála á gamlárskvöld.  Af þeim má draga þá ályktun að árið 2008 hafi víða um heim einkennst af uppreisn gegn ríkjandi yfirvöldum og "kerfum".  Það er þrýst á um breytingar. 
Nú um jól og áramót hef ég hlustað á tvö frábær útvarpsviðtöl við íslenska listamenn, Ólaf Elíasson og Björk.  Bæði lýstu þau sköpunarferli eins og það gerist best.  Þar sem allir sem koma að borðinu leggja sitt af mörkum og fá að njóta sín.  Þar sem haldið er af stað í ferðalag án þess að vita hver útkoman verður.  

Ég veit ekki hvort ég get komið því í orð sem er að brjótast innra með mér, en einhvernveginn trúi ég því að sköpunarkraftur, samvinna og ákveðin auðmýkt gagnvart framvindu lífsins, sé það sem þarf til að nýtt Ísland geti orðið betra og farsælla.  Og ekki bara nýtt Ísland, heldur nýr heimur.  Í þessum nýja heimi dreymir mig um að við látum af því að reyna alltaf stöðugt að koma böndum á lífið og förum þess í stað að vinna með því.  Að "stjórnkerfi" byggi ekki á valdboðum að ofan heldur vettvangi þar sem er farvegur fyrir hugmyndaauðgi, sköpunarkraft og frumkvæði fólks.  Umræðan hér á landi sýnir að það er fullt af fólki með hugmyndir sem virkilega vill taka þátt í þessari "sam"sköpun.  Fólk er tilbúið til að gefa af tíma sínum, þekkingu og kröftum.  En kerfið, eins og það er núna, býður ekki upp á farveg fyrir allan þennan kraft og vilja. 

Mikið þætti mér það spennandi ef hægt væri að búa til vettvang og farveg fyrir þessa sköpun.  Og að við myndum síðan í framhaldinu sjá varanlegar breytingar á því hvernig við iðkum samræðuna og lýðræðið.  Hvernig við sköpum saman og vinnum saman.

Margaret Wheatley hefur sett fram mikið af áhugaverðum hugmyndum á þessum nótum og m.a. skrifað um nýja sýn á leiðtogahlutverkið á kaótískum tímum:  http://www.margaretwheatley.com/

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Gleðilegt nýtt ár og gangi þér vel á næsta ári. Ég tek undir orð þín en myndi vilja bæta því við að við íslendingar höfum einnig gott af því að halda í heiðri vissar leikreglur til að mannleg samskipti og viðskiptaþróun verði eðlilegri.

Anna Karlsdóttir, 3.1.2009 kl. 00:31

2 Smámynd: Sigurborg Kristín Hannesdóttir

Hjartanlega sammála!

Sigurborg Kristín Hannesdóttir, 8.1.2009 kl. 12:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband