12.9.2009 | 12:23
Á nýjum tímum verður til ný skilgeining á því hverjir eru hagsmunaaðilar
Ákvarðanir stjórnenda hafa alla jafna áhrif á þá sem lifa og starfa á því sviði sem ákvörðunin nær til. Hagsmunaaðilar eru þá þeir aðilar sem verða fyrir áhrifum af slíkum ákvörðunum hverju sinni. Tökum sem dæmi þegar teknar eru ákvarðanir um niðurskurð í opinberri þjónustu, segjum heilbrigðisþjónustu. Hagsmunaaðilar eru þeir sem njóta þjónustunnar (sjúklingar og fjölskyldur þeirra), þeir sem veita hana (stofnanir, fyrirtæki og starfsfólk), þeir sem greiða kostnaðinn (notendur, Sjúkratryggingar, ríkissjóður) og aðrir sem breytingar á þessari þjónustu hefur áhrif á (gætu jafnvel verið vinnuveitendur, starfsfólk í heimilishjálp, hjálparstofnanir og þannig mætti lengi telja).
Á nýjum tímum verður í vaxandi mæli litið svo á að þegar teknar eru ákvarðanir sé nauðsynlegt að afla upplýsinga um áhrifaþætti og sjónarmið hagsmunaaðila. Þannig fái þeir tækifæri til að greina frá sínum sjónarhóli og þeir sem taka ákvörðunina hafi fullnægjandi upplýsingar og yfirsýn.